Snjólfur Marel Stefánsson hefur verið kynntur til leiks hjá Black Hills State skólanum í Bandaríkjunum á komandi skólaári. Selfoss Karfa óskar Snjólfi, sem lék með Selfossi í 1. deild karla sl. tímabil, innilega til hamingju með árangurinn.
Snjólfur er alinn upp hjá Njarðvík og hefur leikið með yngri landsliðum Íslands. Hann greip tækifærið sl. haust og gekk til liðs við Selfoss á lánssamningi og lék stórt hlutverk með liðinu, byrjaði inni á í öllum 19 leikjum sínum, skoraði 15,2 stig, tók 8,2 fráköst og stal 1,2 boltum að meðaltali í leik.
Þó Snjólfur sé vissulega uppalinn Njarðvíkingur þá leyfum við hjá Selfoss Körfu okkur að eigna okkur hlut í því að hann er nú kominn á skólastyrk í Bandaríkjunum. Því er ekki að neita að hann spilaði 31:43 mín. í leik með Selfossliðinu og öðlaðist þar með dýrmæta reynslu og fékk tækifæri til að láta að sér kveða á vellinum, eins og tölurnar sýna glöggt. Hjá Njarðvík spilaði Snjólfur 02:20 mín. að meðaltali í leik svo tækifærin þar voru minni.
Það má fullyrða að fleiri ungir leikmenn ættu að láta reyna á gæfuna hjá liðum í 1. deild, fremur en að verma tréverkið í Dominosdeildinni. Snjólfur er lýsandi dæmi um það. Selfoss Karfa mun á næstu árum einbeita sér að því að hjálpa ungum, efnilegum og metnaðarfullum leikmönnum að láta drauma sína rætast, tækifæri til að spila og hjálpa þeim að komast að í háskólaboltanum í USA eða í atvinnumennsku erlendis.
Black Hills State University er sterkur 2. deildarskóli í NCAA og átti gott næstliðið tímabil, með 18 sigurleiki. Í stóru hlutverki hjá liðinu var fyrrum FSU-Akademíu leikmaðurinn Fraser Malcolm, sem nú hefur skrifað undir sinn fyrsta atvinnumannasamning eftir gott tímabil hjá BHSU.
Gangi þér allt í haginn þar vestra, Snjólfur.
Sjá má fréttatilkynningu BHSU hér.