Um helgina var nóg að gera hjá yngri flokkunum en þrjú lið frá 7. flokki tóku þátt í Íslandsmóti, tvö strákalið og eitt stelpulið. Þá fóru fram leikir hjá bæði stúlknaflokki og drengjaflokki um helgina.

7. flokkur kvenna spilaði í b-riðli með sameginilegu liði Þór Þ./Hrunamenn/Selfoss/Hamar. Stelpurnar spiluðu af krafti alla helgina og unnu alla sína leiki. Þær munu því spila í a-riðli á næsta móti. Flottur árangur hjá stelpunum og gaman að sjá bætinguna hjá þeim í vetur.

B-lið 7. flokks keppti í Hagaskóla þar sem spilað var í e-riðli. Strákarnir lögðu sig alla fram en það dugði ekki að þessu sinni og töpuðust allir leikirnir sem þýðir að þeir spili í f-riðli næst. Strákarnir eru staðráðnir í að æfa vel fram að næsta móti og ætla sér aftur upp.

A-lið 7. flokks keppti í Keflavík þar sem spilað var í b-riðli. Eftir sigur í fyrsta leik töpuðust hinir þrír eftir hetjulega baráttu. Með þessum sigri náðu þeir þó að halda sér í b-riðli og var mikill hugur í mönnum eftir mótið að gera enn betur næst.

A-lið drengjaflokks spilaði á Egilsstöðum á laugardaginn þar sem þeir heimsóttu heimamenn í Hetti/Sindra. Okkar strákar höfðu nokkra yfirburði í þessum leik og fengu allir að spila mikið. Sóknin var betri en í síðustu leikjum og var boltaflæðið til fyrirmyndar sem skilaði mörgum auðveldum skotum. Leikurinn endaði með öruggum 94-48 sigri FSu.

Stúlknaflokkur tók svo á móti Vestra á Selfossi á sunnudaginn. Stelpurnar lögðu línurnar strax í fyrsta leikhluta þar sem þær náðu góðu 17 stiga forskoti. Í öðrum leikhluta juku þær enn meira við forskotið sem var komið í 28 stig í hálfleik. Í seinni hálfleik náðu gestirnir í Vestra aðeins að laga sinn leik og endaði leikurinn með 73-50 sigri FSu. Margar stelpur sem hafa verið að spila færri mínútur í vetur fengu tækifæri í þessum leik til að spila stærra hlutverk og stóðu þær sig mjög vel.

Stigaskor FSu: Margrét 19 stig (4 þristar), Una Bóel 11 stig, Gígja 10 stig, Hrafnhildur 8 stig, Perla 8 stig, Emma 8 stig, Hjörný 4 stig, Dagrún 3 stig og Milena 2 stig.