Selfyssingar fengu KR-inga í heimsókn í gær, föstudaginn 26. janúar, þegar liðin mættust í 1. deild karla. KR-ingar hafa verið feiknasterkir á tímabilinu og aðeins tapað tveimur leikjum, og því augljóst að verkefni kvöldsins fyrir heimamenn yrði með þeim erfiðari.

Leikurinn byrjaði mjög jafn og voru heimamenn skrefi á undan allan fyrsta leikhluta. En það breyttist strax í öðrum leikhluta þegar gestirnir komu með sterkt áhlaup sem Selfyssingar áttu erfitt með að finna svör við. Staðan í hálfleik var 31-47 fyrir KR-ingum.

Í stuttu máli var þetta svo gangur leiksins til leiksloka. Selfyssingar voru aldrei líklegir til að koma sér aftur inn í leikinn. KR-ingar pressuðu vel á boltann í vörninni sem skilaði 23 töðuðum boltum fyrir Selfyssinga. KR-ingar nýttu sóknarfærin sín einnig vel á hinum endanum, með Nimrod Hilliard í fararbroddi. Lokatölur leiksins voru 62-108 og óþægilega stórt tap staðreynd fyrir Selfyssinga, sem eru í hörku baráttu um að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni og bjarga sér frá fallsæti.

Eftir leikinn eru Selfyssingar í 9. sæti deildarinnar með 6 stig, jafnmörg og Ármann í 10. sæti.

Tykei Greene og Birkir Hrafn fóru fyrir Selfyssingum, Ty með 21 stig og 11 fráköst og Birkir með 20 stig og einnig með 11 fráköst. Ísak Júlíus var með 9 stig, Vojtech 4 stig og 6 fráköst, Arnór 3 stig, Ebrima Demba 3 stig og Ísar 2 stig.

Næsti leikur Selfyssinga er nk. föstudag á móti Þór Akureyri. Leikurinn byrjar klukkan 19:15 og fer leikurinn fram á Selfossi í Vallaskóla.

ÁFRAM SELFOSS!

 

Myndir frá leiknum

Tölfræði leiksins