Selfoss gerði góða ferð austur í Hornafjörð í gær og lagði Sindra í 8 liða úrslitum 1. deildar karla, 70-79. Þetta var úrslitaleikur liðanna um framhaldslíf í keppninni um sæti í Dómínósdeildinni og Selfoss er þar með komið í undanúrslit, þar sem nágrannarnir í Hveragerði bíða óþreyjufullir eftir 2-0 sigur á Hrunamönnum.

Leikurinn í gær var mesta ströggl. Fyrsti leikhluti var hnífjafn en Selfoss náði eftir það um 10 stiga forskoti, einum þrem sinnum, sem Sindri jafnaði svo út með mikilli baráttu. Heimamenn komust jafnvel einu stigi yfir, 52-51, skömmu fyrir lok þriðja leikhluta, en Selfoss byrjaði fjórða hluta af krafti og náði fljótlega 12 stiga forystu, 54-66, sem heimamönnum tókst ekki að brúa og Selfossliðinu var létt að geta staðið í lappirnar síðustu mínúturnar og „klárað dæmið“.

Það var ekki fegurð leiksins sem var í forgrunni, þó kappið bæri menn heldur alls ekki ofurliði. Of mikið af töpuðum boltum á báða bóga og sóknarleikur okkar manna var stirðlegur, oft völdu leikmenn „erfiðu leiðina“, inn í þétta vörnina í stað þess að láta vaða úr ágætum skotfærum. Þetta skánaði þó í seinni hálfleik og það bjargaði málum, ásamt ágætum varnarleik á köflum.

Terrance var bestur Selfyssinga, markvissari í sóknaraðgerðum en oft áður og skoraði 22 stig, m.a. mikilvægar flautukörfur af þriggjastigafæri, þegar sóknir voru að fjara vandræðalega út. Hann tók 9 fráköst, en mikilvægasta framlagið var þó góður varnarleikur á Gerald Robinson, hélt honum í 13 stigum. Kennedy var framlagshæstur okkar manna; 18 stig, 12 fráköst og 4 stoðsendingar, og þeir Sveinn Búi (15 stig, 7 frk.) og Kristijan (11 stig, 7 sts.) gerðu báðir vel. Gunnar Steinþórsson, sem átti frábæran dag í sigurleik í undanúrslitum u.fl. gegn Fjölni tveimur dögum fyrr (27 stig), skoraði 5 stig, Arnór Bjarki 4 og Aljaz þau 3 sem upp á vantar.

Tölfræðiskýrsla leiksins

Nú taka sem sagt við undanúrslit fjögurra liða um sæti í efstu deild, ásamt Breiðabliki sem þegar hefur tryggt sér sæti „við háborðið“. Annars vegar eigast við Vestri og Skallagrímur og hins vegar Hamar og Selfoss. Þetta eru 5 leika seríur, þ.e. vinna þarf 3 leiki til að komast áfram í keppninni hér eftir. Viðureignir Hamars og Selfoss verða sem hér segir:

Hamar-Selfoss, Hveragerði mánudaginn 17, maí kl. 19:15

Selfoss-Hamar, Gjain Selfossi, föstudaginn 21. maí kl. 19:15

Hamar-Selfoss, Hveragerði mánudaginn 22. maí kl. 19:15

Selfoss-Hamar, Gjáin Selfossi, fimmtudaginn 27. maí kl. 19:15 (ef þarf)

Hamar-Selfoss, Hveragerði sunnudaginn 30.maí kl. 19:15 (ef þarf)

Það er spennandi verkefni og úrvalsgóð reynsla fyrir okkar ungu drengi að hafa unnið sér inn rétt til að taka þátt í alvöru úrslitakeppni, og ef ekki er einmitt núna tækifærið fyrir fólk að styðja við bakið á liðinu, þá er óljóst hvenær …

ÁFRAM SELFOSS!!!