Selfoss mætti toppliði Hauka heima í Gjánni sl. föstudagskvöld í 1. deild karla. Þetta varð ekki með skemmtilegri leikjum, allskyns pústrar, tog og ýtingar sem fóru að langmestu leyti framhjá dómurunum og leikmenn og þjálfarar urðu fyrir vikið pirraðir og argir. Dómararnir tóku með sér úr bænum fullan poka af tæknivillum og kláruðu að mestu úr pokanum, án þess að fyrir því væri endilega knýjandi þörf.

Eftir glimrandi fyrsta leikhluta Selfyssinga og 8 stiga forystu að honum loknum, girtu Haukar sig sem sagt í brók og voru betri aðilinn til leiksloka, unnu óþarflega stórt, eða 77-104.

Gasper var stigahæstur heimamanna með 28 stig og hitti alveg svakalega, sérstaklega í fyrsta leikhluta þegar hann kveikti í netinum með hverjum þristinum á fætur öðrum. Fráköstin urðu 8 og 3 stoðsendingar ásamt glimrandi skotnýtingu gáfu honum 27 framlagspunkta. Trevon skartaði 28 framlagspunktum, með 17 stig, 70% skotnýtingu og 11 stoðsendingum. Gerald hafði fremur hægt um sig, enda hafður í tvöfaldri gæslu ásamt Trevon, en setti 10 stig og tók 5 fráköst. Birkir Hrafn skoraði 9 stig, setti 3 af 8 þriggjastigatilraunum í körfuna, Vito skoraði 7 stig og Ísar Freyr 6.

Tölfræði leiksins

Staðan