Svavar Ingi Stefánsson skrifaði í gær undir leikmannasamning og heldur áfram að bæta leikjum fyrir uppeldisfélagið í sarpinn. Hann á að baki 210 leiki fyrir FSu/Selfoss í meistaraflokki frá 2010, þegar hann var á 16. ári.

Á síðasta tímabili var þessi 205 sm. miðherji með í öllum leikjum liðsins, 21 í deild og 2 í Maltbikarnum og hefur nú í áratug verið ein traustasta stoð liðsins, og á a.m.k. annan áratug eftir, enda aðeins 25 ára gamall.

Að órannsökuðu máli má fullyrða að Svavar sé leikjahæsti leikmaðurinn í sögu félagsins og það er okkur sönn ánægja að enginn bilbugur sé á honum. Svavar er nýbakaður faðir, en hann eignaðist dóttur fyrr á árinu og óskum við þeim hjónaleysum innilega til hamingju með erfingjann.