Selfoss mætti Álftanes í gær, föstudaginn 19. nóvember, í Gjánni. Álftnesingar eru enn að hrista af sér afleiðingar heimsfaraldursins, en nýlega kom upp smit í hópnum þeirra sem setti svoldið strik í reikninginn hjá þeim. En þrátt fyrir allt náðu gestirnir að næla sér í góðan 9 stiga sigur, 74-83, í annars mjög bragðdaufum leik sem bauð ekki uppá mikla skemmtun.

Til gamans má geta að annar dómari leiksins var FIBA-dómarinn Andrada Monika Csender, en hún er leiðbeinandi á kvendómaranámskeiði sem haldið er núna um helgina. Markmið námskeiðsins er að fá fleiri kvenkynsdómara í leikinn. Stóð hún sig, líkt og Bjarki Þór Davíðsson, afbragðsvel í dómgæslunni.

Fyrsti leikhluti byrjaði jafn og skiptust liðin á að skora. Um miðjan leikhlutann skelltu gestirnir í lás og náðu að halda Selfyssingum í 13 stigum í lok leikhlutans. Sama var uppá teningnum í öðru leikhluta, Álftanes náði að halda sóknarleik Selfyssinga niðri á meðan þeir sjálfir settu eina og eina körfu niður. Staðan var 27-42 í hálfleik, gestunum í vil. Skotnýting heimamanna aðeins 28% innan þriggja stiga línunnar.

Í miðjum þriðja leikhluta náði Álftanes mestum mun í leiknum, 21 stig í stöðunni 54-33. Eftir það fóru heimmenn aðeins að vakna til lífsins og minnkuðu muninn jafn og þétt. Á kafla leit það út fyrir að þeir myndu ná að koma sér inní leikinn, en Álftanes voru fastir á sínu og náðu að halda forystunni út leikinn. Staðan í leikslok 74-83, gestunum í vil.

Hjá Álftanesi var Cedrick Bowen atkvæðamestur með 29 stig og 9 fráköst. Eysteinn Bjarni Ævarsson átti einnig fínan leik og skilaði 18 stigum fyrir liðið sitt. Erfitt var að eiga við Friðrik Anton Jónsson, en hann reif niður 16 fráköst í leiknu, ásamt því að skora 12 stig.

Í liði heimamanna var það Trevon Evans með 24 stig, Gasper Rojko með 20 stig og 11 fráköst, Óli Gunnar Gestson 10 stig og 15 fráköst, Vito Smojer 10 stig, Arnar Geir Líndal 6 stig og Þorgrímur Starri Halldórsson með 4 stig.

Næsti leikur er á móti nágrönnum okkar í Hamri, föstudaginn 26. nóvember kl. 19:15 í íþróttahúsi Vallaskóla.

Áfram Selfoss!

Myndasafn úr leiknum:
https://www.facebook.com/media/set/?vanity=SelfossKarfa&set=a.1979922105522482