Selfoss tapaði fyrir Hamri í fyrsta leik sínum á Íslandsmótinu sl. fimmtudagskvöld í Gjánni. úrslitin 81-90 en leikurinn var jafn og spennandi og mikil barátta á báða bóga eins og vera ber í nágrannaslag.

Á 24. mínútu var Selfoss 10 stigum yfir, 52-42 en Hamarsmenn bitu þá í skjaldarrendur og minnkuðu muninn snarlega með góðu áhlaupi. Þegar 2 mínútur voru eftir af leiknum leiddu gestirnir með 3 stigum, 76-79, og tilraunir heimamanna til að jafna og tryggja sér sigur gengu ekki en í staðinn fékk Hamarsliðið nokkrar auðveldar körfur, eins og gengur, og vann 9 stiga sigur.

Björn Ásgeir Ásgeirsson var stigahæstur Selfyssinga með 22 stig og stóð sig skínandi vel í sínum fyrsta leik fyrir liðið. Hann tók 5 fráköst og skotnýtingin til fyrirmyndar. Maciek var með 17 stig og 4 fráköst, sömuleiðis góða skotnýtingu, Matej Delinac skoraði 17 stig, Ari skoraði 9 stig, tók 5 fráköst og gaf 4 stoðsendingar, Elvar Ingi Hjartarson skoraði 7, Adam Smári 5 og Hlynur Freyr Hjartarson 4 stig.

Fyrir Hamar var Everage Lee Richardson allt í öllu, skoraði 32 stig, tók 6 fráköst, var með 27 framlagspunkta og gerði útslagið í þessum leik. Gabríel Möller skoraði 16 stig og tók 5 fráköst en næstir komu Florijan Jovanov með 13, Dovidas Strasunskas með 10 og Marko Milekic með 10 stig. Oddur Ólafsson var að venju baráttuglaður og mikilvægur, ekki síst varnarlega.