Selfossliðið ók austur í Hornafjörð í gær til að etja kappi við heimamenn í Sindra í 1. deild karla. Leiknum lauk með sigri gestanna, 62-82.

Nota má um þetta verkefni þekktan frasa handboltalandsliðsþjálfarans; þetta var „þolinmæðisverk“. Sindramenn eru baráttuglaðir og ágætir í körfubolta, og þó nokkuð hátt hlutfall leikmanmna séu ungir og óharnaðir strákar, og breiddin í liðinu fyrir vikið ekki mikil, er þetta lið sýnd veiði en ekki gefin.

Þó Selfossliðið hafi leitt nánast allan tímann tók það 25 mínútur að ná einhverju frumkvæði, en þaðan í frá jókst munurinn smám saman, varð mestur 25 stig.

Í fyrr hálfleik virtist enginn Selfyssinga geta hitt í körfuna, jafnt langskot sem sniðskot og styttri skot í teignum geiguðu og skotnýtingin í fyrri hálfleik var hreint út sagt skelfileg. Enda eru leikmenn ekki með innbyggða leiðréttingu í miði fyrir utanaðkomandi áhrifum eins og vindstyrk og óátöldum snertingum. En hvað um það.

Hjá Sindra var Matic Macek gríðarlega duglegur, öskufljótur og refsaði ítrekað með hröðum árásum eftir misheppnaðar sóknartilraunir gestanna, skoraði 16 stig og gaf 6 stoðsendingar. Nikolas Susa var stiga- og framlagshæstur Sindramanna með 18/21 og 9 fráköst, Hallmar setti 15 stig og Árni Birgir reif niður 10 fráköst.

Í okkar liði var Marvin Smith Jr. öflugastur með 25 stig og 18 fráköst, þar af 7 í sókn. Snjólfur gerði líka vel með 17 stig og 15 fráköst og Björn Ásgeir átti skínandi dag með 11 stig, 3 fráköst og 4 stoðsendingar. Reyndar voru bara 8 stoðsendingar skráðar á Selfossliðið og 18 alls í leiknum, sem er í minnsta lagi. Bergvin E. Stefánsson átti líka fína frumraun með liðinu, en hann kemur á venslasamningi frá Njarðvík  með Snjólfi, eldri bróður sínum; 4 fráköst, 2 varin skot og góð barátta glöddu augað. Haukur Hlíðar og Sveinn Hafsteinn áttu báðir fína innkomu þær mínútur sem þeir fengu úr að moða og Svavar Ingi átti líka góða spretti.

Ekki var þetta fallegt en liðið allt sýndi baráttu og samheldni sem skilaði sér í öruggum sigri, þar lögðu allir lóð á vogarskálarnar. Þegar skotin rata ekki sína venjulegu leið er það oft helsta bjargráðið.