Selfoss mætti Þór Þorlákshöfn í VÍS-bikarkeppni karla í kvöld. Líkt og í leiknum á móti Haukum á föstudaginn spiluðu Selfyssingar án lykilmanna Ísars Freys og Gerald Robinson. Þórsarar reyndust vera of stór biti fyrir Selfyssinga og vinna leikinn sannfærandi 86-111.

Selfyssingar skoruðu fyrstu tvö stig leiksins en eftir það tóku gestirnir frá Þorlákshöfn við. Þeir náðu fljótt að koma stöðunni í 2-9. Út fyrsta leihluta voru Þórsarar alltaf skrefinu á undan og hittu vel út skotunum sínum. Það gekk allt upp í sókninni hjá þeim og enda gestirnir á að skila 32 stigum á töfluna fyrir lok 1. leikhluta á móti 20 stigum heimamanna. Annar leikhluti var „copy/paste“ af þeim fyrsta, Þórsarar héldu áfram að auka forystuna jafnt og þétt og leiddu inn í hálfleik 40-63. Skotnýtingin hjá Þórsurum var til fyrirmyndar, en þeir voru með 64% nýtingu á móti 46% Selfyssinga.

Þórsarar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og sundurspiluðu Selfyssinga illa á köflum. Selfossi gekk illa að finna sig sóknarlega og mátti miklu mæða á Trevon, sem oft á tíðum var sá eini í liði heimamanna sem reyndi að sækja á körfuna. Í lok 3. leikhluta var Þór komið með myndarlega 42 stiga forskot í stöðunni 57-99. Bæði liðin notuðu bekkinn sinn vel í 4. leikhluta og fengu minni spámenn tækifæri að spreyta sig á vellinum. Það voru spámenn heimamanna sem nýttu sínar mínútur betur og unnu fjórða leikhlutann 29-11, en þó það hefði verið skemmtilegt áhorf, hafði þó lítið að segja um heildarstöðuna. Þórsarar eru komnir áfram í næstu umferð bikarkeppninnar eftir sannfærandi sigur á Selfyssingum, 86-111.

Það var áberandi að það vantar svoldið upp á breiddina í lið Selfyssinga í fjarveru Ísars og Geralds. En það jákvæða er að hinir „ungu og óreyndu“ fengu í staðinn mikilvægar mínútur í reynslubankann fyrir vikið.

Í liði gestanna var Daniel Mortensen atkvæðamestur með 25 stig, á eftir honum voru Glynn Watson og Tómas Valur Þrastarson með 17 stig. Luciano Massarelli og Ísak Júlíus Perdue voru með 12 stig, Ronaldas Rutkauskas með 8 stig, Davíð „Kóngur“ Ágústson með 7 stig, Ragnar Örn Bragason með 6 stig, Emil Karel Einarsson með 5 stig og Sæmundur Þór Guðveigsson með 2 stig. Þeir bráðefnilegu Jónas Bjarki Reynisson (17 ára) og Sigurður Björn Torfason (15 ára) fengu báðir að spreyta sig í leiknum.

Í liði heimanna var það Gasper Rojko sem var atkvæðamestur með 20 stig og 10 fráköst en Trevon Evans var skammt undan með 19 stig. Á eftir þeim var hinn 14 ára gamli Birkir Hrafn Eyþórsson með 10 stig, sem var að spila sínar fyrstu mínútur með meistaraflokk, og Þorgrímur Starri Halldórsson með 10 stig. Styrmir Jónasson (16 ára) var með 8 stig, Arnar Geir Líndal og Óli Gunnar Gestsson með 6 stig, Sigmar Jóhann Bjarnason með 5 stig og Vito Smojer með 2 stig. Styrmir Þorbjörnsson (16 ára) kom einnig við sögu leiknum.

Næsti leikur Selfyssinga er 5. nóvember á Flúðum þegar liðið heimsækir sterkt lið Hrunamanna.

Áfram Selfoss!