Þrír bráðungir og efnilegir piltar fá tækifæri í æfingahóp meistaraflokks karla á Selfossi í vetur. Tveir af þeim eru heimamenn og hafa verið áberandi í yngriflokkastarfi félagsins um hríð. Þetta eru þeir Styrmir Þorbjörnsson og Birkir Hrafn Eyþórsson.

Styrmir er fæddur 2005 og hefur framhaldsskólanám við FSu í haust. Hann verður jafnframt í körfuboltaakademíunni. Birkir Hrafn er fæddur 2006 og því á síðasta ári í grunnskóla.

Sá þriðji er Styrmir Jónasson, fæddur 2005. Hann er frá Akranesi en ákvað að hleypa heimdraganum í vetur og skráði sig í körfuboltaakademíuna við FSu, þar sem hann mun jafnframt stunda sitt framhaldsskólanám.

Allir þessir drengir hafa tekið þátt í verkefnum yngri landsliða Íslands og eiga bjarta framtíð fyrir höndum sem körfuboltamenn.

Nafnarnir verða í stórum hlutverkum í drengja- og unglingaflokki og allir munu þeir æfa með sér eldri og reyndari mönnum, sem vafalaust mun styrkja þá og efla til enn frekari dáða.

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri Birkir Hrafn Eyþórsson, Styrmir Þorbjörnsson og Styrmir Jónasson.