Það var allt í boði í grannaslag Selfoss og Hrunamanna í 1. deild karla í Gjánni í gærkvöldi: hraði, spenna, mistök, glæsitilþrif, áhlaup, barátta og læti. Og til að undirstrika þetta fór leikurinn í framlengingu þar sem Selfoss var sterkara og landaði langþráðum sigri, 89-85.

Selfoss leiddi fyrstu mínúturnar, allt þar til Hrunamenn jöfnuðu 14-14. Selfoss tók aftur forystuna með 8-2 kafla, 22-16 en gestirnir svöruðu þá 0-11 og voru yfir að loknum fyrsta leikhluta, 22-25. Eftir 3 mínútur í 2. hluta höfðu Hrunamenn bætt við 10 stigum í viðbót gegn engu og staðan skyndilega orðin 22-35. Engin bönd héldu Karlo Lebo á þessu skeiði og hann skoraði að vild. Selfoss náði vopnum sínum og minnkaði muninn í 37-39 og taðan í hálfleik 41-44.

Þriðji leikhluti var hnífjafn en Selfossliðið sótti á, komst yfir 54-53 eftir 6 mínútur og leiddi með þremur fyrir lokafjórðunginn, 63-60. Heimamenn skoruðu 5 fyrstu stigin og náðu síðan „þægilegu“ 10 stiga forskoti, 75-65 fyrir miðjan síðasta hlutann. Þegar 5 mínútur voru eftir af leiknum munaði 8 stigum, 77-69, og Hrunamenn neituðu að játa sig sigraða, enda engin ástæða til, og skoruðu níu stig á móti einu.

Þrátt fyrir að Selfyssingar gerðu ítrekaðar tilraunir til að vinna ekki, m.a. með því að brenna af mörgum vítaskotum, þar af tveimur þegar 1,4 sekúndur voru eftir og staðan 78-78, þá má segja að þeim hafi ekki tekist að tapa þessum leik. Í framlengingunni var farið að draga af helstu mönnum í báðum liðum, töluvert um mistök, og spenna í lofti. Hrunamenn komust yfir 80-81 en Selfoss svaraði með tveimur körfum, 84-81. Lokaorðið var svo Selfyssinga, þegar Ari setti svellkaldur niður tvö víti þegar 3,5 sekúndur voru eftir af framlengingu í stöðunni 87-85 og tryggði með því sigurinn, 89-85.

Corey Tate var að venju bestur Hrunamanna. Hann setti 32 stig, tók 9 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Karlo Lebo var illviðráðanlegur í fyrri hálfleik, kominn með 16 stig og gæslumenn hans í bullandi villuvandræðum. Terrance Motley tók við gæslu Lebos í síðari hálfleik og setti fyrir lekann. Nýliði hjá Hrunamönnum, Veigar Páll Alexandersson, sem er á láni frá Njarðvík, átti góðan dag með 19 stig og 5 fráköst (undir „dulnefninu“ Óðinn Freyr Árnason á tölfræðiskýrslunni), Yngvi Freyr skoraði 6 og tók 8 fráköst, Eyþór Orri skoraði 6 og Orri Ellertsson 2 stig.

Það var fínn andi í Selfossliðinu, barátta og leikgleði, og bekkurinn tók virkan þátt í leiknum, sem hefur stundum skort verulega upp á hjá liðinu. Þetta var réttnefndur „liðssigur“ þar sem allir sem einn lagði til málanna, burtséð frá fjölda leikmínútna. Kristijan var atkvæðamestur með 22 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar, auk þess að gæta Corey Tate nánast allar 43 mínúturnar sem hann spilaði, og gera það afbragðsvel. Terrance var líka góður, þó hann missti af lokakaflanum vegna villufjölda. Hann bjargaði miklu með því að þagga að mestu niður í Lebo, öðrum lykilmanni Hrunamanna. Terrance skoraði 17 stig og tók 11 fráköst. Sveinn Búi skoraði 15 stig og stal 4 boltum og Kennedy Clement, hinn 18 ára fulltrui Real Betis á Selfossi, sýndi flott tilþrif með 15 stig og 7 fráköst. Arnór Bjarki og Svavar Ingi skoruðu 6 hvor, Aljaz 4 og Sigmar Jóhann 2 stig, en bætti við 7 fráköstum á 15 mínútum. Ari setti þessi tvö víti í lokin, tók 3 fráköst og sýndi þá yfirvegun sem liðið þarf nauðsynlega á að halda.

Tölfræðisamanburðurinn sýnir mikið jafnræði með liðunum, heildarskotnýting, fráköst, stoðsendingar, villur, stolnir og tapaðir boltar eru í jafnvægi. Það vildi Selfossliðinu til happs varðandi slaka vítanýtingu að gestirnir stóðu sig enn verr á vítalínunni og þó ekki hafi tekist að skera niður tapaða bolta frá síðasta leik svo neinu nemi, eins og kallað var eftir í skrifum hér á síðunni, þá slógu Hrunamenn okkar mönnum við hvað það varðar í þetta skipti.

Tölfræðiskýrslan

Myndasafn Björgvins Rúnars Valentínussonar úr leiknum.

Það er skammt stórra högga á milli. Á morgun, sunnudag, er unglingaflokksleikur, en flestir liðsmennirnir leika þar líka, á mánudag er leikur í 1. deild gegn Fjölni á útivelli og næstkomandi föstudag fær liðið Vestra í heimsókn í Gjána.

ÁFRAM SELFOSS!!!