Tveir ungir efnispiltar hafa samið við félagið til næstu ára og verða því hluti af þeim sterka kjarna sem er til staðar í yngri aldursflokkunum og bera mun merki félagsins hátt í náinni framtíð.

Þetta eru Þorgrímur Starri Halldórsson, 18 ára gamall, 207 sm hár miðherji sem alinn er upp í Fjölni en kemur á Selfoss frá KR. Starri, sem er U18 landsliðsmaður, semur til næstu fjögurra ára.

Styrmir Jónasson er bakvörður, aðeins 16 ára gamall, og einnig í landsliðsklassa í sínum aldursflokki. Hann kom á Selfoss frá Akranesi síðsumars, hóf nám í FSu og í körfuboltaakademíu félagsins. Styrmir tekur út sinn körfuboltaþroska hér samhliða námi til stúdentsprófs næstu þrjú árin.

Þessir efnilegu strákar leika með unglingaflokki en eru jafnframt hluti af æfinga- og leikmannahópi meistaraflokks, þar sem þeir hafa þegar stigið sín fyrstu og lofandi skref með Selfossliðinu í 1. deild.

Auk þessara tveggja eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki þeir Styrmir Þorbjörnsson, 16 ára, og Birkir Hrafn Eyþórsson, á 15. ári, sem báðir koma úr yngriflokkastarfi félagsins. Stór hópur efnilegra leikmanna, sem munu koma inn í hópinn á næsta og næstu árum, bíður svo við þröskuldinn.

Það má því fullyrða að framtíðin sé björt og að stefna félagsins að huga fyrst og fremst að ungviðinu sé að skila sér.