Yngriflokkaliðin okkar halda áfram að gera það gott og um helgina unnust tveir glæsisigrar.

Selfoss/Hamar er á mikilli siglingu í 9. flokki drengja og hefur liðið ekki tapað leik í haust, unnið 6 leiki í röð í deild og að auki tryggði liðið sér framhaldslíf í VÍS-bikarnum með sigri í fyrstu umferð. Á laugardaginn lék liðið gegn Breiðabliki í Smáranum í Kópavogi og gerði sér lítið fyrir og vann öruggan 12 stiga sigur, 44-56. Þessi hópur hefur eflst mjög en það er ekki langt síðan hann var fremur fámennur og brothættur. Samstarfið við Hamar hefur verið sannkölluð vítamínsprauta og svo hafa að auki bæst í hópinn mjög öflugir strákar. Sannarlega spennandi tímar framundan hjá þessum efnilegu piltum.

Liðið er nú í góðri stöðu, taplaust með 12 stig og efst í 2. deild en Keflavík nartar í hælana með 8 stig, 4 sigra og 2 töp. Ef allt fer sem horfir tryggir liðið sér sæti í 1. deild og fer svo að kljást um meistaratitla áður en langt um líður.

Á sunnudaginn hélt svo Selfoss a í 10. flokki drengja vestur í Grafarvog og atti kappi við Fjölni. Það varð ekki spennandi viðureign því Selfoss vann leikinn 25-97. Það er því greinilega allt að smella saman hjá okkar drengjum en jafnframt óskum við þess að Fjölnispiltar láti ekki deigan síga heldur bíti í skjaldarrendur og mæti ákveðnir til leiks næst.

Selfoss er nú í 2.-5. sæti 1. deildar í 10. flokki með 4 sigra og 2 töp, en ÍR trónir á toppnum ósigrað eftir 5 leiki. Selfoss mætir einmitt ÍRingum í næsta leik á heimavelli í Gjánni laugardaginn 20. nóvember kl. 17.00 og þá kemur betur í ljós hver staðan á liðinu er.

Vert er að hvetja fólk til að mæta á þann leik, en þarna eru á ferðinni tvö lið sem spila afar fallegan og skemmtilegan körfubolta og hafa á að skipa mörgum stórefnilegum leikmönnum.

ÁFRAM SELFOSS!!!