Tveir leikmenn hafa bæst í hópinn og Körfuboltaakademíuna fyrir komandi vetur. Þetta eru ungir evrópskir strákar sem leita tækifæra til að koma leikmannaferli sínum á skrið, Gasper Rojko og Vito Smojver.

Gasper Rojko er 25 ára framherji/miðherji frá Slóveníu. Hann á feril með yngri landsliðum heimalandsins, bæði U16 og U18, og lék á síðasta tímabili með Postojna í 2. deild í Slóveníu, þar sem hann stóð sig glimrandi vel með 18,6 stig, 9,4 fráköst, 2,5 stoðsendingar, 1,2 varin skot og 22,6 framlagspunkta að meðaltali í leik. Þá var hann valinn besti miðherjinn og varnarmaðurinn og í 5 manna úrvalslið og varnarlið deildarinnar. 

Þetta er duglegur og fjölhæfur strákur sem getur gert sitt lítið af hverju og verður forvitnilegt að sjá hvernig hann plumar sig í 1. deildinni hér uppi á Klakanum. 

Myndband af Gasper Rojko

Vito Smojver er frá Króatíu, 19 ára hæfileikaríkur og fjölhæfur bakvörður/framherji sem getur leikið stöður 1-3. Hann er góður með boltann og fín skytta, hávaxinn íþróttamaður, sem gagnast vel í körfubolta.

Hann kemur til okkar á Selfossi úr sterkri 2. deild karla í heimalandinu þar sem hann stóð sig vel með 22 stig og 5 fráköst að meðaltali í leik.

Vito skráir sig í Akademíuna á Selfossi til að bæta sig og undirbúa feril sinn sem best. Hann fær góð tækifæri í unglingaflokki og að sanna sig í leikmannahópi meistaraflokks.

Myndband af Vito Smojver

Selfoss Karfa fagnar áhuga þessara gæðapilta á körfuboltaakademíunni og starfinu okkar og býður þá velkomna.