Tvö lið féllu úr keppni í undanúrslitum í gær. Stelpurnar í 10. flokki töpuðu fyrir Haukum og strákarnir í  unglingaflokki fyrir Stjörnunni/Álftanesi. Þá eru þrjú lið eftir í keppni. 9. fl. drengja og b lið 10. fl. drengja eiga eftir  úrslitaleik um deildarmeistaratitla og a lið 10. fl. drengja leikur gegn KR í undanúrslitum nk. mánudag.

Stelpurnar í 10. fl. Selfoss/Hrunamanna/Hamars mættu ógnarsterku liði Hauka í Ólafssal í Hafnarfirði í gær. Þrátt fyrir mikla baráttu og góða spretti áttu þær undir högg að sækja og töpuðu leiknum 55 : 31.

Tímabilið hjá stelpunum hefur verið losaralegt á köflum, þær koma frá þremur félögum og geta ekki æft saman sem lið, nema endrum og sinnum. Við þessar erfiðu ytri aðstæður stóðu þær sig mjög vel og unnu góða sigra. Þetta eru efnilegar stelpur sem geta náð langt ef þær halda hópinn og þétta raðirnar.

Úrslitin í leik unglingaflokks Selfoss/Hamars gegn Stjörnunni/Álftanesi réðust rétt í lokin þegar heimaliðið seig fram úr. Selfoss/Hamar leiddi allan fyrsta fjórðung og fram í miðjan annan fjórðung þegar Stjarnan/Álftanes komst yfir 25-23. Garðbæingar voru skrefinu á undan fram undir lok þriðja hluta þegar Sunnlendingar komust yfir 56-59 með 8-0 kafla og leiddu með einu stigi 58-59 þegar síðasti leikhlutinn hófst.

Jafnt var, 67-67 þegar 7 mínútur voru eftir en þá skildi á milli, heimamenn settu 7 stig í röð og héldu sínu til loka, úrslitin 92-80.

Strákarnir okkar lögðu allt í leikinn en stóðust ekki áhlaup heimastráka í lokin, sem tóku 8 sóknarfráköst í 4. leikhluta og á sama tíma fóru vítaskotin okkar forgörðum mikið til.

Garðbæingar stóðu vel að þessum leik og skráðu tölfræði. Á skýrslunni kemur fram að Friðrik Anton Jónsson var okkur erfiður ljár í þúfu með 26 stig og 21 frákast, 40 framlagspunkta, og sama má segja um fleiri stráka með reynslu úr Subwaydeildinni.

Í okkar liði var ÍSar Freyr framlagshæstur með 18 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Vito skoraði 17, tók 5 fráköst og gaf 4 stoðsendingar, Óli Gunnar skorðai 14 og tók 6 fráköst, Birkir Hrafn á láni úr 10. flokki setti 13 stig og tók 4 fráköst, Sigurður Dagur og Gunnar Steinþórs. skoruðu 6 stig, Styrmir Jónasar. 4 og Haukur Davíðs. skoraði 2 og tók 7 fráköst.

Keppnistímabilinu er þar með lokið hjá báðum þessum liðum og við tekur stífur undirbúningur fyrir næstu lotu í haust.

Tölfræðiskýrslan

ÁFRAM SELFOSS!!!