Selfoss tefldi í fyrsta skipti fram tveimur liðum á Íslandsmóti 11 ára stúlkna, þegar 3. umferðin fór fram í Smáranum í Kópavogi um helgina. Ber þetta vitni um hið góða starf sem unnið hefur verið undir stjórn Trausta Jóhannssonar þjálfara við að efla hlut kvenna innan félagsins og fjölga stúlkum í körfu.

Annað Selfossliðið var skipað stúlkum fæddum árið 2011 og hitt yngri leikmönnum, fæddum 2012, og reyndar einni fæddri 2014.

Eldra liðið spilaði í C riðli eftir að hafa unnið D riðilinn örugglega í síðustu umferð. Það gekk glimrandi vel hjá stelpunum og þær áttu fullt erindi í þennan sterkari riðil, unnu þrjá leiki en töpuðu aðeins einum, og það naumlega, gegn nágrönnum okkur í Hrunamannahreppi, sem endurheimtu fyrir vikið sæti sitt í B-riðli.

Ekki vantar mikið upp á að stelpurnar okkar stígi næsta skref, upp í B-riðil, og fá þær tækifæri til þess í byrjun apríl, þegar 4. umferð verður leikin.

Yngra liðið byrjaði í D-riðli á sínu fyrsta móti og sýndi góða takta. Stelpurnar gerðu sér lítið fyrir og unnu alla leikina örugglega. Þær færast þar með upp í C-riðil og gætu mætt félögum sínum í eldra liðinu á næsta móti; Selfoss A gegn Selfoss B yrði nú skemmtileg viðureign!

Bæði liðin sýndu frábæra baráttu og stelpurnar lögðu sig allar fram allan tímann, og nýttu keppnina jafnframt til að örva gleði og samstöðu. Það eru nokkur atriði í leikskipulagi sem bæta þarf úr og unnið verður hörðum höndum að kippa í liðinn á næstu æfingum.

ÁFRAM STELPUR!!!

ÁFRAM SELFOSS!!!