Í kvöld tók Selfoss á móti Ármanni í 12. umferð fyrstu deildarinnar. Fyrir leikinn höfðu bæði lið aðeins unnið tvo leiki og tapað níu og mátti því búast við hörku leik, sem reyndist rétt. Tykei Greene, nýr leikmaður Selfyssinga, var kominn með leikheimild fyrir leikinn og var því að spila fyrsta leikinn sinn fyrir félagið.

Leikurinn fór mjög rólega af stað en Selfyssingar fundu ekki fyrstu stigin sín fyrr en á fjórðu mínútu leiksins, en þá hrukku þeir líka í gang og komu með sannfærandi 16-0 áhlaup. Staðan var 18-7 eftir fyrsta leikhluta. Heimamenn héldu áfram að sækja sterkt á körfuna í öðrum leikhluta en gestirnir sögðu þá stopp og ekki lengra. Ármann náðu að koma sér aftur inn í leikinn og löguðu stöðuna í 40-36 áður en flautað var í hálfleik.

Þriðji leikhluti var mjög jafn og skildu aldrei meira en 4 stig á milli liðanna. Selfyssingar voru sterkari í fjórða leikhluta og náðu að halda gestunum í hæfilegri fjarlægð allt til loka. Lokatölur leiksins voru 76-68 og langþráður sigur staðreynd.

Leikurinn var góð skemmtun, stútfullur af flottum tröðslum frá báðum liðum.

Tykei Greene dróg vagninn fyrir heimamenn í sínum fyrsta leik með Selfoss og skilaði 34 stigum og 11 fráköstum. Ísak Pedrue var með 12 stig, öll fyrir utan þriggjastigalínuna. Birkir Hrafn var með 11 stig, V. Novák 9 stig, Ebrima Demba 5 stig og 8 fráköst og Tristan Rafn 3 stig.

Næsti leikur Selfoss er föstudaginn 19. janúar á móti Skallagrím. Leikurinn fer fram í Broganesi og byrjar kl. 19:15.