Selfoss/Hamar/Hrunamenn tók á móti Þór Þorlákshöfn í unglingaflokki sl. sunndag á heimavelli sínum í Gjánni og mátti sætta sig við að tapa 57-80. Liðið hefur verið fremur brokkgengt það sem af er hausti, átt glimrandi rispur en dottið niður á milli og ekki enn náð að klára heilan leik af fullum krafti.

Í leiknum gegn Þór varð engin breyting á því, liðið byrjaði illa og ljóst að ekki dugir því að fara fyrst að spila af alvöru þegar það er lent 20 stigum undir! Í fyrsta fjórðungi var sóknarleikurinn alltof hægur og vörnin galopin þannig að Þórsliðið raðaði niður körfunum, og segja má að þar hafi leikurinn tapast, því okkar menn unnu bæði annan og þriðja fjórðung og sá fjórði var jafn.

Það sem var í mestu ólagi hjá okkar liði var einbeiting og samskipti í vörninni og fyrir vikið fengu leikmenn Þórs um of að nýta styrkleika sína: ekki var farið út í skytturnar en í staðinn vaðið of ákaft út á móti þeim sem eru síðri skyttur en góðir að keyra að körfunni. Þá má segja að sóknarleikurinn hafi verið of staður alveg fram í þriðja fjórðung, þegar boltinn fór loks að ganga betur.

Þetta er hópur sem getur gert betur, en þarf til þess að þjappa sér saman og skapa betri liðsbrag, byrja t.d. á því að tileinka sér hin gömlu en síungu gildi: tala saman í vörninni! Með einföldum hætti getur þessi hæfileikaríki hópur því snúið við blaðinu á skömmum tíma og fundið taktinn.

Stigaskorið: Björn Ásgeir 10 stig, Sigurjón 9, Hlynur Snær 9, Arnór Bjarki 9, Arnar Dagur 7, Orri 7, Aron 4 og Viktor 2 stig.

Næsti leikur hjá unglingaflokki er nk. sunnudag, 2. desember kl. 15:00, heima í Gjánni gegn ÍA/Skallagrími.