Nú þegar hafa nokkrir leikir verið leiknir, bæði æfingaleikir og leikir á Íslandsmóti.

Þegar hefur verið sagt frá úrslitum í leikjum 11. flokks drengja gegn Þór norður á Akureyri, en liðin léku tvo leiki í beit eina helgina, og Selfoss sigraði í þeim báðum.

11. flokkur b mætti liði Fjölnis á heimavelli sínum í Gjánni 5. september síðastliðinn. Selfossliðið var nokkuð lengi í gang, gekk illa að koma boltanum í körfuna og jafnvel sniðskot vildu ekki í netið. Liðið spilaði fasta vörn um allan völl og er gaman að fylgjast með þróun varnarleiksins í hópnum, einn á einn vörn á boltann er í góðri framför og þessi ákafi varnarleikur skilaði sér þegar á leið leikinn, ásamt því að „hringurinn stækkaði“ smám saman, þannig að leiknum lauk með öruggum sigri Selfoss, 83-54.

Ungmennaflokkur skrapp í Þorlákshöfn og mætti þar sameinuðum nágrönnum heimamanna og Hvergerðinga. Selfossliðið var á tánum allan leikinn, spilaði hörkuvörn, stal urmul af boltum og skoraði úr hraðaupphlaupum í framhaldinu, oft með ógnartroðslum. Lokatölur í leiknum voru 77 – 109.

Meistaraflokkur leikur fyrsta leik á Íslandsmótinu í 1. deild karla eftir rúma viku, föstudaginn 23. sept. kl. 19:15 gegn Fjölni á útivelli. Til að undirbúa sig hefur liðið leikið þrjá æfingaleiki. Segja má að liðið hafi oftast verið ryðgaðara í fyrstu haustleikjunum undanfarin ár, og því e.t.v. von um skemmtilegan vetur. Samt er það nú svo að þetta er nýtt lið með mörgum nýjum leikmönnum sem þarf tíma til að slípa saman. En úrslitin í æfingaleikjunum voru eftirfarandi:

Selfoss – Sindri 95 – 81

Selfoss – Hamar: 88 – 90 (eftir framlengingu)

Selfoss – Ármann: 112 – 82