Eftir tvo sigurleiki undanfarið tapaði Selfossliðið fyrir Hamri í gærkvöldi, 94-85. Leikurinn fór fram í Hveragerði og heimaliðið tryggði sigurinn með 31-9 yfirburðum í öðrum leikhluta, en jafnt var á metunum, 25-25 eftir fyrstu 10 mínúturnar. Þó Selfoss ynni seinni hálfleikinn með 13 stigum var það ekki nóg til að krafsa sig upp úr holunni.

Það má segja að Selfoss hafi glutrað upplögðu tækifæri til að leggja Hamar að velli, því í lið Hvergerðinga vantaði nánast allt byrjunarliðið. Jose Medina, Brendan Howard og Björn Ásgeir voru allir utan liðs, og Ragnar Ágúst var sendur í sturtu fyrir litlar sakir eftir að hafa spilað tæplega 21 mínútu. En hér geta Selfyssingar engum um kennt nema sjálfum sér, því  liðið var sannast sagna utan gátta í varnarleiknum. Bæði einstaklings- og liðsvörn var í molum og Hamar skaut aftur og aftur opnum æfingaskotum fyrir utan þriggjastigalínuna, nú eða tölti framhjá varnarmanni og æfði sniðskotin eins og í upphitun. Ofan á þetta saltaði Hamar Selfyssinga ofan í tunnu í fráköstum, tók heil 18 sóknarfráköst, og þar var Raggi Nat. ekki skæðasti hrellirinn eins og gera mátti ráð fyrir, heldur bakverðir Hamars, sem réðust á körfuna og gleymdist einhverra hluta vegna alveg að stíga út.

Hamarsliðið sem sagt vann þennan leik á meiri samheldni og baráttugleði, en einmitt á þeim nótum tókst leikmönnum Selfoss að vinna Sindra á útivelli réttri viku fyrr, og leitt að sú reynsla og lærdómur hafi gleymst í búningsklefanum austur í Hornafirði.

Alfonso Gomez var bestur Hamarsmanna, langt yfir sínum meðaltölum, með 20 stig og 8 fráköst, 55% nýtingu úr galopnum þriggjastigaskotum og 26 framlagspunkta. Mirza Sarajlija skoraði 19 stig, tók 5 fráköst og gaf 8 stoðsendingar og Daði Berg var öflugur  13 stig og 12 stoðsendingar. Elías Bjarki setti 18 stig, Daníel Sigmar reif niður 7 fráköst, Haukur Davíðs. skoraði 11 stig og Ragnar Ágúst  var með 9 stig og 8 fráköst á sínum stytta heimsóknartíma. Hamar fékk því gott framlag úr mörgum áttum frá baráttuglöðum og einbeittum leikmönnum.

Ekki verður viljinn til að gera sitt besta tekinn af leikmönnum Selfoss, en hugurinn var ekki rétt stilltur og einbeitingu skorti, of margir voru á hælunum í vörninni og létu því taka sig í bólinu hvað eftir annað. Sóknarleikurinn var nógu góður til að vinna varalið Hamars en vörnin klikkaði sem sagt.

Ísak var bestur Selfyssinga, alveg frábær í sínum gegnumbrotum, fór illa með Hvegerðinga hvað eftir annað og lagði boltann í körfuna, skoraði 28 stig, sem er hans mesta í vetur, gaf 8 stoðsendingar og fiskaði 8 villur, var mikið á vítalínunni. Kennedy setti 16 stig, tók 10 fráköst og varði 2 skot, var framlagshæstur ásamt Ísaki með 22 punkta. Arnaldur skoraði 11 stig og tók 4 fráköst, Gerald 11 stig og 6 fráköst, Styrmir 10 stig og nýtti sín skot afburða vel, Birkir Hrafn skoraði 7 stig og Sigmar 2 stig. Það var skarð fyrir skildi að Ísar var veikur og ekki með, en hann hefur verið sá leikmaður sem einna helst hefur náð að kveikja í liðinu með ákafa sínum og orku í varnarleiknum.

Einhverjum kann að þykja þetta full neikvæð umsögn, en segja verður hverja sögu eins og hún er. Liðið er mjög sveiflukennt, getur verið alveg glimrandi skemmtilegt, og unnið hvern sem er, en dettur svo ansi mikið niður inn á milli, leikmenn eiga það til að hverfa inn í sig, verða litlir í sér einmitt þegar þörf er á því að þenja út kassann og láta aðra vita hvar Davíð keypti ölið.

Nú reynir á hvort botninn finnist vestur í Borgarfirði, því næsti leikur er einmitt í Borgarnesi, gegn  Skallagrími, föstudaginn 17. mars kl. 19:15. Skallagrímur hefur verið á mikilli siglingu undanfarið og klifrað upp í 4. sæti deildarinnar. Selfoss vann hann úti með 5 stigum í fyrstu umferð en tapaði svo grátlega á heimavelli með 2. Hvað sem öðru líður þarf Selfossliðið að þjappa sér saman og bíta í skjaldarrendur. Þá gerast góðir hlutir, burt séð frá úrslitum. Um annað biðjum vér eigi.

Tölfræðin

Staðan

ÁFRAM SELFOSS!!!