Selfoss spilaði í gærkvöldi annan leikinn á innan við viku, nú í Smáranum, gegn toppliði Breiðabliks. Eftir að hafa spilað af krafti og leitt alveg fram í seinni hálfleik skorti tog í Selfossvélina og Blikarnir lulluðu taktfastir framúr og unnu 14 stiga sigur, 91-77.

Það var virkilega gaman að fylgjast með Selfossliðinu í fyrri hálfleik. Mikill kraftur og áræðni og maður á mann vörn Blika réð ekkert við Cunningham, sem skoraði 20 stig í hálfleiknum, í öllum regnbogans litum. Selfoss leiddi 14-21 eftir fyrsta fjórðung. Kópoavogsliðið hélt ró sinni og fylgdi allan annan fjórðung í humátt á eftir, beið færis og minnkaði muninn hægt og bítandi, staðan í hálfleik 39-44.

Strax í upphafi seinni hálfleiks breytti Pétur leikskipulaginu, setti á svæðispressu og framliggjandi svæðisvörn í framhaldinu. Larry Thomas varð ágengari við leikstjórnendur Selfoss og gerði þeim erfiðara fyrir að setja sóknarleikinn af stað og um leið var Cunningham teikaður þvers og kruss um teiginn, en eins og allir vita er það heimilt í körfubolta, ef leikmenn eru illstöðvanlegir með öðrum aðferðum. Fyrir vikið voru sendingalínur þröngar og erfitt að koma boltanum í hendurnar á honum nálægt körfunni. Á sama tíma voru aðrir leikmenn Selfoss ekki nógu ógnandi og sóknarleikurinn staðnaði mjög fyrir vikið. Blikar fóru líka að salla niður þristum, Árni Elmar, Thomas og Hilmar fánaberar í sóknarleiknum. Heimamenn unnu þriðja hluta 23-12 og voru komnir í bílstjórasætið.

Eftir 4 mínútur í fjórða leikhluta fór munurinn fyrst yfir 10 stigin, 74-63 og Selfossliðið átti eftir það ekki inni nægan kraft eða úrræði til að gera nein alvöru áhlaup og Breiðablik sigldi lygnan sjó til hafnar.

Fimm leikmenn sáu um stigaskorið hjá Breiðabliki að mestu. Larry Thomas var þeirra bestur, í vörn g sókn, með 22 stig, 6 frk. og 4 sts. 27 framlagsstig. Hilmar átti skínandi leik, 22 stig, 5 frk. og 7 sts. og sömuleiðis var Sveinbjörn  öflugur með 9 stig, 10 frk. og 4 sts. Árni Elmar var stigahæstur með 24 stig og Bjarni Geir setti 12 sig, 4/8 úr þristum. Egill Vignisson bætti þeim 2 stigum við sem á vantar.

Christian Cunningham var frábær í Selfossliðinu sem fyrr með 31 stig, 17 frk. 2 varin skot, 58% nýtingu og 37 framlagsstig. Með hraða sínum og áræðni splundraði hann Blikavörninni aftur og aftur í fyrri hálfleik – og endaði árásirnar ítrekað með glæsitroðslum. Í seinni hálfleiknum var hann í strangri gæslu og skoraði þá ‘bara’ 11 stig.

Kristijan Vladovic setti 10 stig og gaf 5 sts. Sveinn Hafsteinn átti góða innkomu sóknarlega og skoraði 8 stig, Arnór Ívarsson 7 stig og tók 4 frk., Arnór Eyþórs. 6 stig og 4 frk. Maciek 6 stig og 4 sts., Alex 5 stig og Hlynur Logi Ingólfsson skoraði 4 stig, tók 4 fráköst og gaf 4 sts.

Tölfræðin

Næsti leikur Selfoss er á heimavelli gegn Snæfelli nk. föstudagskvöld kl. 19:15