Selfoss sótti Hamar heim í 1. deild karla í kvöld og tapaði 94-88. Leikur Selfossliðsins var slakur og það voru sérstök vonbrigði að liðið skyldi ekki sýna nágrönnum sínum þá virðingu að mæta til leiks á réttum tíma, heldur byrja fyrst að spila um miðjan 2. leikhluta, komið ofan í 22 stiga djúpa holu.

Selfoss skoraði fyrstu körfuna en það var í eina skiptið sem liðið var yfir. Í stöðunni 9-8 eftir 3 mínútur skoruðu heimamenn 10 stig í röð og síðan önnur 10 stig gegn 2 og staðan orðin 29-10 eftir 7 mínútna leik. Okkar menn voru  einbeitingarlitlir og úti á þekju, engin vörn spiluð og Hamar skoraði auðveldar körfur alls staðar að af vellinum, bara þar sem hann kærði sig um. Að loknum fyrsta leikhluta var 18 stiga munur, 36-18, og brött brekka framundan.

Um miðjan 2. leikhluta var munurinn kominn upp í 22 stig, 47-25, og stefndi í rótburst. Þá loksins mætti Selfoss í leikinn, þegar 25 mínútur voru eftir, skoraði 2-10 og minnkaði svo muninn í 10 stig, 51-41, en Hamar leiddi í hálfleik með 12 stigum, 56-44. Segja þær tölur allt um varnarleik Selfossliðsins, en þó ljóst að staðan var orðin mun vænlegri og enn möguleikar í stöðunni.

Þriðji leikhluti var hnífjafn, 19-19, en Selfoss nýtti því miður ekki mörg gráupplögð tækifæri til að minnka muninn enn frekar. Varnarleikurinn var orðinn eitthvað betri og Hamar skoraði ekki lengur að vild, en einbeitingin var ekki nógu góð til að nýta mörg ágæt færi sem gáfust til að jafn leikinn fyrir síðasta leikhlutann, og munurinn því enn 12 stig, 75-63.

Í upphafi fjórða komst Selfoss strax undir 10 stiga múrinn, 75-66, en Everege leist ekki á þá þróun og leiddi Hamar aftur í 15 stiga mun, 88-73. Selfossliðið lagðist ekki niður og dillaði rófunni heldur kom muninum niður í 3 stig, 89-86, mest fyrir langþráða og góða rispu frá Kelmelis. Selfoss fékk svo tækifæri til að minnka muninn enn frekar, eða jafna leikinn, en næstu sóknir runnu klaufalega út í sandinn og Hvergerðingar gátu varpað öndinni léttar, sluppu með skrekkinn og 6 stiga sigur.

Þetta tap var sárara vegna þess að þetta var mikilvægur leikur í baráttu liðsins fyrir sæti í úrslitakeppninni. Að ekki sé talað um stolt fyrir félagið í nágrannaslag! Að liðsheildin sé úti á þekju fram í miðjan annan fjórðung, menn séu ýmist yfirspenntir eða linkulegir í sínum aðgerðum, skilar ekki árangri.

Þegar brotin eru stytt og reiknað úr jöfnunni var það Everege Lee Richardson sem vann þennan leik. Hann skoraði 31 stig, tók 8 fráköst og gaf 7 stoðsendingar, 34 í framlagseinkunn. Everege skoraði ekki bara heldur lét hann samherja sína líta vel út. Milekic (19 stig) og Strasunskas (12) fengu ógrynni sniðskota gefins frá honum og einnig Florijan Jovanov (14 stig) en Florijan gerði einnig vel í fráköstum (12/4 í sókn) og var kominn með 12 stig strax í fyrsta fjórðung. Sem betur fer spilaði Örn ekki nema 9 mínútur en hann hitti úr öllu sínu, eins og vanalega. Aðrir voru varla með í stigaskori, en auðvitað var Oddur mikilvægur póstur varnarlega, og 8 flottar stoðsendingar og hæsta +/- framlag liðsins (18) segja sína sögu.

(Eftirfarandi er byggt á tölfræðiskýrslunni úr leiknum, en hún er því miður röng í veigamiklum atriðum, m.a. varðandi stigaskor leikmanna o.fl. Leiðréttingar verða færðar inn þegar þær liggja fyrir).

Arminas og Mike Rodriguez voru stigahæstir í Selfossliðinu með 17 stig hvor. Arminas vaknaði þó ekki fyrr en í 4. leikhluta, en sýndi þá eitthvað af því sem í honum býr og leiddi endurkomu liðsins í sókninni, með 60% skotnýtingu en mætti gjarnan
bæta við fleiri fráköstum. Mike Rodriguez skoraði 5 stig úr vítum (5/5) en hin 12 stigin úr 25 skottilraunum, sem er aðeins 24% nýting, bætti við það 5 fráköstum og 6 stoðsendingum. Snjólfur var ekki alveg rétt stilltur en skoraði 14 stig og var duglegur í fráköstum að vanda, náði í alls 10. Ari skoraði 13 stig, hitti 75% úr þristum en tók aðeins 4 slíka, og 8 skot í öllum leiknum. Chris var ekki jafn heitur og á Egilsstöðum um daginn, skoraði 8 stig, þar af 6 úr vítum, en þegar litið er á +/- þá er hann hæstur liðsfélaga sinna með +12. Björn Ásgeir skilaði 6 stigum (2/2 í þristum og +6), Hlynur Freyr skoraði 5 stig, Adam Smári gerði ágætlega með 5 stig og 5 fráköst (+10), og Svavar Ingi skoraði 3 stig.

Niðurstaðan úr þessum langhundi er að Selfossliðið átti að vinna þennan leik. Með réttri einbeitingu strax í upphafi og eðlilegu liðsframlagi hefði það orðið niðurstaðan. Það er ekki ásættanlegt í nágrannaslag að mæta allt of seint til leiks og gefa sigurinn frá sér strax í upphafi, tapa fyrsta hluta með 18 – en vinna svo hina þrjá með samtals 12.

Næst mætir Selfoss efsta liði deildarinnar, Þór frá Akureyri, í Gjánni fimmtudaginn 6. desember kl. 19:15 Það verður mikil prófraun fyrir liðið, sem hefur þegar sýnt, með góðum liðssigri á Egilsstöðum, að í því býr karakter sem getur yfirstigið erfiðar hindranir

Krækja má í tölfræðina úr leik kvöldsins með því að smella hér.