Selfoss lék fyrsta heimaleikinn í 1. deild karla á keppnistímabilinu í gærkvöldi gegn nágrönnum sínum, Hrunamönnum. Þetta var alveg fljúgandi start hjá Selfossliðinu sem réði lögum og lofum og vann sannfærandi sigur, 103-88.

Gangur leiksins

Hrunamenn skoruðu fyrstu körfuna en Selfoss svaraði og tók forystuna með þriggjastigakörfu, og lét hana ekki af hendi upp frá því. Fljótlega stóð 12-5 og eftir 9 mínútur 29-15 en Hrunamenn löguðu aðeins stöðuna fyrir lok fyrsta leikhluta, þegar stóð 31-20.

Eftir fjórar mínútur í öðrum hluta munaði 22 stigum á liðunum, 47-25, og Selfossliðið gekk á flestum ventlum fram að hálfleik þegar staðan var 63-39. Mestur varð munurinn 30 stig en Selfossliðið missti aðeins einbeitinguna, eins og gjarnan verður þegar munurinn er orðinn þetta mikill, og Hrunamenn sóttu smám saman í sig veðrið þegar leið á þriðja leikhluta, náðu að minnka bilið, og 19 stigum munaði þegar síðasti leikhlutinn hófst.

Fjórði leikhlutinn snerist um að laga stöðuna og halda sjó. Forystu Selfoss varð aldrei ógnað en Hrunamenn börðust og sýndu keppnisskap, munurinn hélst 15-20 stig til loka og niðurstaðan 103-88 eins og fram hefur komið.

Tölfræðin lýgur ekki

Tölfræðiskýrslan sýnir svart á hvítu muninn á liðunum. Hrunamenn skutu heldur betur, 50% á móti 44%, en Selfyssingar tóku 14 fleiri skot, 84 á móti 70 gestanna. Vítanýting heimaliðsins var frábær, 88% en gestirnir hittu úr tveimur af hverjum þremur skotum af vítalínunni. Selfoss hafði betur á öðrum sviðum, í fráköstum, stoðsendingum, stolnum/töpuðum boltum og framlagsstigin voru 131-91.

Gestirnir

Ahmad James Gilbert og Samuel Anthony Burt fóru fyrir Hrunamönnum. Gilbert setti 29 stig og tók 9 fráköst en Burt 25 stig, af 28 af bekknum hjá liðinu, og var framlagshæstur allra með 28 punkta. Friðrik Heiðar Vignisson (12 stig) og Eyþór Orri Árnason (11 stig/4 frk) áttu fína spretti og afbragðs skotnýtingu, og Eyþór skaraði þar fram úr öllum þátttakendum í leiknum. Konrad Tota skoraði 6 stig og tók 4 fráköst, Óðinn Freyr skoraði 3 stig og Yngvi Freyr 2. Gaman var að sjá Hauk Hreinsson aftur í búning eftir allmörg ár, en hann sýndi hvers má vænta, þegar hann verður kominn í betra form, reyndi ekki körfuskot en tók 4 fráköst og gaf nokkrar gulli slegnar stoðsendingar.

Selfossliðið

Í Selfossliðinu lögðu margir lóð á vogarskálarnar. Reynsluboltarnir drógu vagninn, eins og til er ætlast. Srdjan var bestur með 30 stig, 9 stoðsendingar, 6 fráköst, 37 í framlag og hæsta +/- gildið, 21. Gerald var líka öflugur en hann skoraði 28 stig og tók 10 fráköst.

Úr yngri deildinni átti Kennedy Clement góðan dag með 18 stig, 4 sts og 4 frk. en hans aðalhlutverk var að gera Gilbert erfitt fyrir í sóknarleiknum. Ísar Freyr lék vel og skoraði 6 stig úr 4 þriggjastigatilraunum og Ísak Júlíus heldur áfram að heilla í leikstjórnandahlutverkinu. Hann hafur sannarlega staðið undir öllum væntingum í haust, yfirvegaður og öruggur með boltann, hugsar minna um að skora sjálfur en að stjórna aðgerðum og leita uppi félaga sína, efni í sannan hershöfðingja á velli. Níu stoðsendingar tala sínu máli og 5 stolnir boltar segja sitt um varnarleikinn. Bætum við 5 fráköstum og sagan er rétt að byrja.

Fleiri komu við sögu. Arnaldur Grímsson er bráðefnilegur og á eftir að láta til sín taka í vetur, orkubolti með mikið keppnisskap og nóg af hæfileikum, skoraði 7 stig og tók 5 fráköst. Brikir Hrafn gerði vel, þó þristarnir hafi ekki dottið að þessu sinni, skilaði 4 stigum og 3 fráköstum, og hans ljós á eftir að skína, sannið þið til. Aðrir komu minna við sögu, en Jónas (4 stig) og Styrmir Jónasar (2 stig) bættu við því sem upp á vantar í 103.

Framhaldið og væntingarnar

Það er alltaf gott að vinna fyrsta heimaleikinn og margt jákvætt má segja um liðið. Það er tvímælalaust betra í upphafi móts en félagið hefur teflt fram undanfarin ár og sjálfsagt að hafa væntingar um þokkalegt gengi í vetur. Hrunamenn eru reyndar greinilega ekki komnir þangað núna sem þeir stefna með sitt lið en verða skeinuhættir hverjum sem er þegar lengra líður fram á haustið. Án þess að taka neitt frá þeim má segja að það reyni af alvöru á það hvers Selfossliðið er megnugt í næsta leik, sem er útileikur gegn Álftanesi mánudaginn 10. október kl. 19:15 í Forsetahöllinni, en Álftnesingum er spáð sigri í deildinni og þeir fara vel af stað með tveimur naumum sigrum, gegn Þór Ak. í fyrstu umferð og Hamri í gærkvöldi.

En hvað sem öðru líður má gera sér vonir um skemmtilegan vetur.

ÁFRAM SELFOSS!!!

Myndasafn Björgvins Rúnars Valentínussonar

Tölfræðiskýrslan