Unglingaflokkur Selfoss/Hamars/Hrunamanna spilaði gegn Fjölni sl. laugardag í Grafarvoginum og lá í valnum, 103-80.

Það sem varð okkar liði að falli í þessum leik var einbeitingarskortur, allt liðið verður að vera á tánum allan tímann ef vel á að fara en nokkuð vantaði sem sagt upp á að svo væri. Þó vissulega hafi bráð af mönnum inn á milli, og liðið þá haft í fullu tré við gestgjafana, voru afslöppunarkaflarnir of margir og langir til að vel gæti farið.

Í upphafi leiks náðum við forystunni með góðri boltahreyfingu og samvinnu en það entist ekki lengi, liðið slakaði á, Fjölnismenn gengu á lagið og náðu góðu forskoti. Leikurinn skánaði stórum í 2. leikhluta og við minnkuðum muninn í 6 stig. En Adam var ekki lengi í paradís; einbeitingin fauk út um gluggann, liðið var seint aftur í vörnina og Fjölnir refsaði grimmilega með hverju hraðaupphlaupinu á fætur öðru. Skortur á samskiptum og slök vörn í þriðja leikhluta bættu ekki úr skák og Fjölnir náði 30 stiga forystu. Þrátt fyrir ágæta tilburði komust okkar menn eftir það ekki nær en 12 stig í fjórða leikhluta. Þá lak allur vindur úr liðinu og einbeitingin með, Fjölnir fékk auðveldar körfum á silfurfati og vann leikinn örugglega.

Það gengur víst ekki annað en að hafa hausinn skrúfaðan fastan á strjúpann allan leikinn ef vel á að fara. Þessi leikur var kennslubókardæmi um það, einbeitingin var ekki til staðar nema endrum og sinnum og því fór sem fór. Ef „taka á eitthvað jákvætt úr þessum leik“ eins og sagt er þegar illa gengur, þá er það einföld lexía: Allt liðið mæti með hausinn rétt skrúfaðan á og haldi honum þar til leiksloka.

Stigaskorið skiptist þannig að Elvar Ingi setti 20 stig, Björn Ásgeir 19, Arnar Dagur 15, Hlynur Snær 10, Orri 6, Arnór 5, Viktor 3 og Sigurjón Unnar 2 stig.