Stöðugt eru leikir í yngri aldursflokkum og handleggur að fylgjast með því öllu og koma til skila. Undanfarna viku þarf að greina frá úrslitum í fjórum slíkum leikjum, þar sem sigur vannst í þremur en einn tapaðist.

Ungmennaflokkur lék gegn Breiðabliki í Smáranum sl. sunnudag. Eftir nokkuð jafnan leik hafði Breiðablik sigur, 84 – 77. Munaði um að Birki Hrafn, sem glímir við meiðsli, vantaði í liðið. Okkar menn voru ekki á skotsokkunum að þessu sinni og gekk illa að finna netið, en vel að hitta körfuhringinn. Það verður í lagi næst. Liðið hefur nú unnið 4 af 6 leikjum.

12. flokkur gerir það gott og vann fimmta leikinn í röð í upphafi móts, í Gjánni sl. laugardag, 22. okt. Að þessu sinn var Höttur fórnarlambið og úrslitin öruggur sigur, 101 – 55. Staðan er góð hjá liðinu í 2. deild, 5/0 og allt öruggir sigrar hingað til.

Sunnudaginn 23.10. mætti 11. flokkur drengja b-liði Stjörnunnar í Ásgarði. Strákarnir unnu öruggan sigur, 75 – 91 og eru á góðu skriði í deildinni og líka komnir áfram í næstu umferð í bikarkeppninni. Árangurinn hingað til er afbragð, 5/1 sigurhlutfall.

Sömu sögu er að segja af b-liði 11. flokks drengja. Það mætti Ármenningum í Kennaraháskólanum í gær, mánudag 24.10 og vann öruggan sigur, 66 – 83. Sigurhlutfall liðsins er 4/1 þegar hér er komið sögu, og lítið hægt að kvarta yfir því!

ÁFRAM SELFOSS!!!